fbpx

Okkar hugsjón

Hver erum við?

Við, Dagný Fjóla Elvarsdóttir og Brynjar Ingi Hannesson stofnuðum, eigum og rekum verslunina Aftur Nýtt. Ég, Dagný bjó í Danmörku um nokkurt skeið og seinna meir í Noregi með Brynjari. Við kynntumst verslunum sem selja notaðar vörur í gegnum básaleigu frá vinum okkar í Finnlandi en finnar hafa verið leiðandi á þessum markaði. Það blundaði alltaf áhugi á því að opna slíka verslun hér á landi eftir að við fluttum til Íslands. Við settumst að á Akureyri og stofnuðum fjölskyldu. Árið 2018 höfðum við samband við Nýsköpunarmiðstöð norðurlands og eftir skemmtilega fundi var ákveðið að opna verslun sem sérhæfir sig í að selja notaðan barnafatnað á betra verði. Græni unginn varð að veruleika 27. október 2018. Akureyringar eru og hafa alltaf verið mjög framarlega þegar kemur að umhverfismálum og endurspeglaðist það í viðhorfi bæjarbúa til verslunarinnar við opnun.

Fyrir jólin 2018  tókum við eftir því að eftirspurn eftir notuðum fullorðins fötum var ekki minni en af barnafatnaði og fórum við því að auglýsa fatabása fyrir börn og fullorðna þar sem fólk gat bæði selt og keypt notaðar vörur á betra verði. Breyttum við nafninu samhliða í Aftur-Nýtt. 

Við opnuðum jafnframt vefverslun sem selur notaðar vörur. Það er mjög vel tekið í vefverslun sem þessa. Fljótlega vorum við komin með viðskiptavini alls staðar af á landinu. Þar sem fólk fagnaði því að geta keypt notaðar vörur fyrir sig, fjölskylduna, heimilið, gæludýrin o.s.frv. á betra verði óháð staðsetningu. 

Við rekum Aftur nýtt af  umhverfissjónarmiðum.  Fyrir okkur snýst rekstur verslunarinnar um sjálfbærni. Þegar við opnuðum verslunina þá vildum við skilja eftir sem minnst fótspor fyrir náttúru og umhverfi og smíðuðum bása sem eru úr við sem hvorki er búið að lakka né mála. Með því er hægt að farga básunum á umhverfisvænan hátt þegar að því kemur. Flestar innréttingar í Aftur-Nýtt eru notaðar. Herðatré sem við notum höfum við mörg hver fengið frá verslunum og viðskiptavinum sem annars hefðu fargað þeim en hjá okkur eru þau í notkun þar til þau verða ónothæf. Margir leigjendur hafa fært okkur nytsamlega hluti sem við höfum getað nýtt áfram og má þar nefna t.d. vængina fyrir mátunarklefana, fataslár, herðatré o.s.frv. Viðskiptavinir okkar hafa verið duglegir að færa okkur pappapoka sem við nýtum áfram í verslununni. Aðrir rekstraraðilar í Sunnuhlíð hafa séð okkur fyrir kössum fyrir pantanir sem eru sendar útá land.

Við höfum mikinn áhuga á náttúru og erum sífellt að leita leiða til þess að betrumbæta verslunina í takt við hugsjónina sem við byrjuðum með þegar við opnuðum Aftur Nýtt. Árið 2019 höfðum við samband við fyrirtæki sem sérhæfir sig í að hjálpa fyrirtækjum að verða umhverfisvænni. Þau mæltu með því að við hættum að nota verðbyssur með plasti til þess að skjóta í fötin vegna þess að þetta litla plast lendir oft í óflokkaða ruslinu þar sem það fær ekki rétta meðhöndlun á förgun. Í staðinn er hægt að fá bönd hjá okkur eða nota þjófavarnir sem nælur til þess að festa verðmiðana í flíkurnar. 

Við hjá Aftur-Nýtt elskum jörðina og viljum leggja okkar að mörkum til að skila henni fallega frá okkur.